Nicolás Maduro hefur tilkynnt um að ríki Venesúela muni nú hækka bensínverð um heil 6000%. Á sama tíma mun gjaldmiðill þjóðarinnar, bólívarið, veikjast talsvert - úr 10 bólívörum per Bandaríkjadollar í 6,3 bólívar per dollar.

Það þýðir að útflutningsaðilar í Venesúela munu njóta gjaldeyrismismunar í einhverja stund. Bensínverð hleypur þá úr 0,097 bólívörum á lítrann upp í 6 bólívar á lítrann.

Maduro útskýrði í fimm klukkustunda langri sjónvarpsræðu hvers vegna þessar aðgerðir væru lífsnauðsynlegar fyrir efnahag Venesúela. Að sögn Maduro er þetta gert til þess að ná jafnvægi á hlutina - og að hann taki persónulega ábyrgð á aðgerðunum.

Bensínverðið mun, að sögn leiðtogans, styðja við félagsbótakerfi á borð við húsnæðisbætur, heilbrigðisþjónustu og menntakerfið, en það voru einna helst þessi félagsbótakerfi sem Hugo Chávez, forveri Maduro, fékk gífurlegt fylgi fyrir þegar hann tók við völdum fyrir 17 árum.