Hlutabréfaverð bresku matvörukeðjunnar Morrisons hefur hækkað um meira en 30% í morgun eftir að félagið hafnaði 5,5 milljarða punda yfirtökutilboði frá bandaríska fjárfestingarfélaginu Clayton, Dubilier & Rice (CD&R) um helgina.

Morrisons sagði í tilkynningu að stjórn félagsins hefði hafnað tilboðinu þar sem CD&R hafi vanmetið Morrisons og framtíðarhorfur fyrirtækisins verulega. Tilboðið var um 30% yfir lokagengi Morrisons á föstudaginn síðasta.

Heimildarmaður Financial Times segir að CD&R fylgist nú með viðbrögðum fjárfesta og almennings. Fjárfestingarfélagið, sem er með Goldman Sachs sem ráðgjafa, hefur þar til um miðjan júlímánuð til að gera annað tilboð, samkvæmt breskum lögum.

Hlutabréf annarra fyrirtækja í matvörugeiranum í Bretlandi hækkuðu við fréttirnar. Sainsbury‘s og Ocado hækkuðu um 3,5%, M&S um 3% og Tesco um 1,3%.