Hagfræðideild Landsbankans segir 0,25% hækkun stýrivaxta þvert á væntingar bankans. Bankinn spáði óbreyttum stýrivöxtumEr  í ljósi mikilla sviptinga á erlendum mörkuðum og vaxandi óvissu um hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptalöndum Íslands á komandi misserum og í ljósi þess hversu veikburða efnhagsbatinn er hér á landi.

Í frétt Landsbankans kemur fram að síðustu mælingar Hagstofunnar bendi til jákvæðs hagvaxtar á fyrsta ársfjórðungi í fyrsta sinn frá miðju ári 2008. Er það merki um að veikburða efnahagsbati sé hafinn en þá séu fjárfestingar enn í sögulegu lágmarki.

Hagfræðideild Landsbankans telur að ótímabært hafi verið að hefja hækkunarferlið fyrr en skýr merki kæmu fram um aukna fjárfestingu. Þrátt fyrir að verðbólga hafi aukist umtalsvert undanfarna mánuði er ólíklegt að vaxtahækkun við núverandi aðstæður í hagkerfinu muni hafa teljandi áhrif til lækkunar verðbólguvæntinga. Helstu drifkraftar verðbólgunnar undanfarna mánuði eru fyrst og fremst veiking krónunnar fyrr á árinu, hækkun hrávöruverðs á heimsmarkaði og hækkun fasteigna- og leiguverðs. Þessir þættir eru hinsvegar utan áhrifasviðs hinna hefðbundnu stýritækja SÍ.

"Fjárfestingar og útlánavöxtur eru í sögulegu lágmarki og því ekki ljóst gegn hvaða þenslu Seðlabankinn er að reyna að hamla. Hækkun stýrivaxta hefur einnig bein áhrif til hækkunar á fjármögnunarkostnaði ríkissjóðs hér innanlands sem stjórnvöld verða að mæta með annaðhvort meiri niðurskurði eða hærri sköttum en ella," segir í áliti Landsbankans.