Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins hækkuðu um allt að 16,6% umfram verðbólgu á árinu 2012 sem er hæsta raunávöxtun sjóðsins frá upphafi. Í tilkynningu frá sjóðnum segir að allar ávöxtunarleiðir hans hafi skilað jákvæðri nafnávöxtun á árinu eða á bilinu 4,2% til 21,8%.

Hæsta nafnávöxtunin, 21,8% var á Ævisafni I sem er að stórum hluta ávaxtað í erlendum sjóðum. Hækkun safnsins má helst rekja til hagstæðrar þróunar á erlendum mörkuðum, að því er segir í tilkynningunni, auk þess sem varúðarafskriftir gengu að hluta til baka. Ævisafn II hækkaði að nafnvirði um um 16,7%, Ævisafn III um 10,6% og Samtryggingarsjóður hækkaði um 14,8% að nafnvirði.

Ein ávöxtunarleið, Ríkissafn - stutt, var með neikvæða raunávöxtun upp á 0,4% á árinu. Þá voru söfnin Ríkissafn - langt með 1,8% raunávöxtun og Innlánasafn með 1,9% raunávöxtun.