Friðfinnur Ragnar Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri millibankamarkaða Glitnis, var í Hæstarétti í dag dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex skilorðsbundna, fyrir innherjasvik í starfi hjá Glitni. Þá voru sjö milljónir, sem er eignarhlutur hans í fasteign í Fjallalind í Kópavogi, gerðar upptækar.

Friðfinnur var upphaflega dæmdur í tólf mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir innherjasvik með því að hafa í fimm aðskilin skipti á árinu 2008 selt hlutabréf sín í Glitni þrátt fyrir að búa í öllum tilvikum yfir innherjaupplýsingum um lausafjárstöðu bankans sem hann varð áskynja um í starfi sínu hjá bankanum. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í dag.