Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms frá 16. janúar síðastliðnum um frávísun máls Wow air gegn Samkeppniseftirlitinu, Isavia og Icelandair ehf.

Héraðsdómur byggði í ákvörðun sinni á því að Wow air ætti ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurði áfrýjunarnefndar Samkeppnismála í tveimur málum fellda úr gildi. Annar úrskurðurinn var í máli Isavia gegn Samkeppniseftirlitinu og hinn í máli Icelandair ehf. gegn Samkeppniseftirlitinu.

Málið snýst um úthlutun á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli vegna fyrirhugaðs áætlunarflugs Wow air til Bandaríkjanna sumarið 2014.

Í niðurstöðu úrskurðar héraðsdóms frá því í janúar á þessu ári segir að bæði hafi Wow air fengið úthlutað afgreiðslutímum fyrir næsta sumar vegna Bandaríkjaflugs og einnig að félagið hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurði um afgreiðslutíma síðasta sumars hnekkt. Þótt þeim yrði hnekkt myndi réttarstaða félagsins ekki breytast. Var málinu því vísað frá héraðsdómi. Hæstiréttur hefur, eins og áður segir, staðfest niðurstöðu héraðsdóms.