Samþykki grísk stjórnvöld ekki skilyrði fyrir aðra lánalínu frá Evrópusambandsinu gæti svo farið að landinu verði sparkað úr hópi evruríkjanna. Lánið hljóðar upp á 130 milljarða evra, jafnvirði næstum 21 þúsund milljarða íslenskra króna, og á að gera Grikkjum kleift að standa við skuldbindingar sínar.

Lánalínan er hluti af aðgerðum sem leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins komu sér saman um eftir stíf fundarhöld í fyrrahaust til að forða evrusvæðinu frá hruni. Lánardrottnar Grikklands samþykktu meðal annars í fundarhöldunum að gefa eftir helming skulda gríska ríkisins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lýst því yfir síðan helstu útlínur björgunarpakkans voru útlistaðar að helmingsafskrift lána muni ekki duga til að forða Grikkjum frá fjárhagsörðugleikum.

Grísk stjórnvöld hafa enn ekki samþykkt skilmála lánsins en í þeim felast frekari aðhaldsaðgerðir.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian er vitnað til þess að Vassilis Rapanos, formaður bankastjórnar gríska seðlabankans, segi skilyrðin fela í sér að Grikkir verði annað hvort að draga saman seglin og almenningur að sætta sig við verri lífskjör en áður eða hætta evrusamstarfinu. Það muni svo valda því að lífskjör í landinu færist aftur um nokkra áratugi.