Matvælaframleiðandinn Unilever, sem meðal annars framleiðir Twister og Popsicle ísinn, hyggst hætta að beina auglýsingum sínum fyrir ísinn að börnum vegna aukinnar offitu. Árið 2016 voru 18% allra barna og unglinga, eða meira en 340 milljón manns á aldursbilinu 5 til 19 ára, í ofþyngd, sem er mikil fjölgun frá 4% árið 1975.

Ætlar félagið meðal annars að takmarka notkun teiknimyndapersóna í auglýsingum sínum sem og hætta að nota áhrifavalda á samfélagsmiðlum sem höfða til barna undir 12 ára aldri.

Félagið hefur þurft að draga auglýsingar til baka í gegnum árin eftir kvartanir um að það væri að beina óhollustu að börnum. Félagið segir nýju reglurnar muni ná til allra vöruflokka félagsins eftir árið í ár, en byrja með ístegundum undir merkjum Wall´s.

Jafnframt hefur félagið sett á markað „ábyrga“ vörulínu sem inniheldur að hámarki 110 kaloríur og 12 grömm af sykri í hverjum skammti að því er BBC segir frá. Meðal merkja sem félagið framleiðir og eru vinsæl hjá börnum eru Max, Paddle Pop og Twister, en síðasta varan er seld hér á landi.