Seðlabanki Íslands hyggst hætta reglubundinni gjaldeyrissölu frá og með mánudeginum næsta. Alls seldi bankinn 453 milljónir evra, jafngildi um 71,2 milljörðum króna, með reglubundnum hætti frá 14. september síðastliðnum.

Ákvörðunin um að hætta reglubundinni gjaldeyrissölu er tekin með hljiðsjón af gengisstyrkingu krónunnar undanfarnar vikur og betra jafnvægi á gjaldeyrismarkaði, að því er kemur fram í tilkynningu á vef Seðlabankans. Hann mun eftir sem áður grípa inn í á gjaldeyrismarkaði til að draga úr sveiflum eftir því sem hann telur tilefni til.

Reglubundin gjaldeyrissala nam 50,8% af heildarveltu bankans með gjaldeyri á tímabilinu 14. september 2020 til 30. apríl 2021, og 22,2% af heildarveltu gjaldeyrismarkaðarins.

Framkvæmd gjaldeyrissölunnar á tímabilinu var þannig að Seðlabankinn seldi viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði 3 milljónir evra hvern viðskiptadag. Þann 7. apríl síðastliðinn var dregið úr umfangi og tíðni sölunnar með fækkun viðskiptadaga úr fimm í þrjá, en fjárhæð hverrar gjaldeyrissölu var óbreytt.

Líkt og kom fram að ofan hóf Seðlabankinn reglulega gjaldeyrissölu í miðjum septembermánuði síðastliðnum. Í tilkynningunni segir að innlendur gjaldeyrismarkaður hafi á þeim tíma ekki farið varhluta af áhrifum Covid farsóttarinnar.

„Gengi krónunnar hafði veikst töluvert vegna mikils samdráttar útflutningstekna og fjármagnshreyfinga, og verðmyndun á gjaldeyrismarkaði var óskilvirk. Það var mat Seðlabankans að aukið og stöðugt framboð gjaldeyris úr gjaldeyrisforða bankans myndi að öðru óbreyttu leiða til aukins stöðugleika á gjaldeyrismarkaðnum með aukinni dýpt og bættri verðmyndun.“