Barney Frank, þingmaður demókrata í fulltrúadeildinni fyrir Massachusetts og formaður þingnefndar sem fjallar um fjármálastofnanir og fjármálaþjónustu hefur ákveðið að hætta þingmennsku á næsta ári, eftir 32 ára setu í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

Frank er 71 árs gamall og fyrsti bandaríski þingmaðurinn sem opinberaði að hann væri samkynhneigður.

Barney Frank.
Barney Frank.
Frank er þingmaður 4. kjördæmis í Massachusetts og hafa demókratar átt öruggann þingmann þar í 64 ár. Í kosningunum í fyrra sýndu kannanir hins vegar að innan við helmingur kjósenda styddu hann.

Sjálfur segir Frank að breyting á kjördæmaskipan í fylkinu væri aðalástæða þess að hann sækist ekki eftir endurkjöri.  Síðan þá hafa vinsældir Obama og Demókrataflokksins ekki aukist og kann það að spila inn í ákvörðun þingmannsins.

Mikill þrýstingur hefur einnig verið á hann frá ýmsum hópum sem eru hliðhollir Repúblíkanaflokknum.  Var Frank harðlega gagnrýndur fyrir að þiggja 4,4 milljón dala styrki frá fjármálastofnunum þrátt fyrir að hafa lofað að gera það ekki.

Meðal auglýsinga sem andstæðingar hans hafa birt gegn honum er þessi hér að neðan þar sem Frank er gagnrýndur harkalega fyrir að þiggja styrki í kosningasjóð sinn frá íbúðalánasjóðunum Freddie Mac og Fannie Mae, sem báðir hafa verið teknir yfir af alríkissjóðnum.