Frá því að Landeyjahöfn var opnuð um mitt ár 2010 hefur 1,1 milljarði króna verið varið til dýpkunarframkvæmda í höfninni. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

„Þetta er miklu meira en reiknað var með,“ segir Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar, en í rekstraráætlun var upphaflega gert ráð fyrir að dæla þyrfti 30 þúsund rúmmetrum af sandi á ári.

Raunin er hins vegar sú að dæla hefur þurft upp milli 250 og 300 þúsund rúmmetrum á ári síðastliðin ár. Er magnið því átta til tíu sinnum meira en lagt var upp með.

Sigurður segir að í útreikningunum hafi verið gert ráð fyrir nýjum Herjólfi sem risti ekki eins mikið. „Mesti munurinn á áætlun og því sem reyndin varð felst í að dýpka þarf mikið meira fyrir Herjólf en nýja ferju.“