Iceland Express hefur fengið vilyrði fyrir aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli en félagið hefur í langan tíma falast eftir aðstöðu þar fyrir farþega sína í innanlandsflugi. Flugstoðir ohf. hafa greint félaginu frá því að búið sé að finna félaginu lóð í sunnanverðri Vatnsmýrinni, gegnt núverandi flugstöð, þar sem félagið getur byggt upp 500 fermetra aðstöðu. Um leið hefur flughlað fyrir Iceland Express verið sett á fjárlög.

Að sögn Matthíasar Imsland, forstjóra Iceland Express, eru þetta mjög ánægjuleg tíðindi en aðstöðuleysi hefur hamlað mjög starfsemi félagsins í innanlandsflugi. Flugstöðin á Reykjavíkurflugvelli er í eigu Icelandair sem hefur ekki viljað heimila Iceland Express afnot af húsnæðinu. Matthías sagðist vera mjög ánægður með þann stað sem félagið hefði nú fengið vilyrði fyrir enda væri þetta sá staður sem félagið sóttist eftir að fá. „Þetta er gríðarlega ánægjulegt fyrir okkur og það sem við höfum stefnt að lengi,“ sagði Matthías.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .