Í dag verður fyrsta skólfustungan að nýrri verksmiðju Lýsis hf. tekin á Fiskislóð. Í fréttatilkynningu frá Lýsi segir að eftirspurn eftir afurðum fyrirtækisins hafi verið mjög góð að undanförnu en 90% af afurðunum fara til útflutnings. Afkastageta núverandi verksmiðju sé ekki næg til þess að anna eftirspurn og því verði ný 4 þúsund fermetra verksmiðja reist á Fiskislóð en hún mun tvöfalda núverandi framleiðslugetu Lýsis, úr rúmlega 6 þúsund tonnum í 13 þúsund tonn. Áformað er að nýja verksmiðjan verði tekin í notkun næsta vor. 

„Eins og síðast er það Héðinn sem annast mun hönnun og uppsetningu verksmiðjunnar, Arkþing hannar bygginguna og aðalverktaki er  J.E.Skjanni. Auk nýju verksmiðjunnar verður skrifstofurými tvöfaldað og rými verður fyrir tanka og vörugeymslu. Búnaðurinn kemur til landsins í nóvember næstkomandi og hefja tæknimenn Héðins þá uppsetningu, samhliða byggingu hússins," segir í tilkynningunni.

Landsbankinn fjármagnar framkvæmdina.