*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 17. mars 2015 07:33

Hafna frekari stóriðju í Hvalfirði

Kjósarhreppur mun ekki taka þátt í þróunarfélagi á Grundartanga í Hvalfirði.

Ritstjórn

Stjórn Kjósarhrepps hefur ákveðið að draga sig út úr samstarfi sveitarfélaga í Grundartanga Þróunarfélagi ehf. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu.

Þar er greint frá því að oddviti hreppsins hafi ritað undir viljayfirlýsinu um samstarfsvettvang á Grundartanga í lok nóvember 2014. Hún hafi hins vegar þá snúist um umhverfismál og mótun framtíðarsýnar um svæðið.

Hvalfjarðarsveit, Akranes, Reykjavík, Faxaflóahafnir, Borgarbyggð og Skorradalshreppur auk Kjósarhrepps áttu samkvæmt núverandi drögum jafnan hlut í félaginu. Hinir þrír fyrstnefndu áttu hver að eiga einn fulltrúa, en hinir síðari þrír áttu að eiga einn sameiginlegan fulltrúa. Kjósverjar eru ósáttir við það auk stefnu félagsins.

„Kjósarhreppur hefur ekki talið það vera fyrir hagsmuni íbúa og atvinnurekstrar í sveitarfélaginu að stuðla að frekari uppbyggingu á stóriðju á Grundartanga í Hvalfirði,“ segir í bókun sveitarstjórnarinnar.