Svínræktarfélag Íslands hafnar fullyrðingum fréttastofu RÚV um að svínabændur stundi ólöglegar geldingar á grísum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í dag. Þar segir einnig að svínabændur vinni í samstarfi við stjórnvöld að innleiðingu nýrra laga um velferð dýra.

Fréttastofa RÚV greindi frá því í gærkvöldi að allir svínabændur á Íslandi geldi grísi án deyfingar. Þá var talað við Sigborgu Daðadóttur, yfirdýralækni, en hún sagði að geldingar án deyfingar væru í raun ólöglegar. Í kjölfar fréttaflutnings RÚV hvatti formaður Dýraverndunarsambandsins, Hallgerður Hauksdóttir, til þess að fólk sniðgengi íslenskt svínakjöt vegna geldingaraðferðanna.

Í tilkynningu Svínræktarfélagsins kemur fram að ný lög um velferð dýra tóku gildi síðustu áramót og því séu svínabændur þegar farnir að vinna að því að innleiða þau í samstarfi við stjórnvöld. „Svínabændum er mikið í mun að innleiðingin laga og reglna á þessu sviði takist vel og hafa þeir af þeirri ástæðu farið þess á leit við landbúnaðarráðherra að erlendur sérfræðingur verði fenginn til þess að gera úttekt á íslenskum svínabúum, með hliðsjón af gildistöku nýju laganna, og til að veita ráðgjöf um nauðsynlegar úrbætur. Á næstu árum er því ljóst að miklar breytingar munu verða í íslenskum svínabúum sem miða að aukinni velferð og bættum aðbúnaði svína. Þá hafa svínabændur einnig kallað eftir afstöðu ráðherra til þess hvort ekki sé ástæða til að gera sömu kröfur um velferð vegna þeirra þeirra svínafurða sem fluttar eru hingað til lands frá öðrum löndum og gerðar eru samkvæmt íslenskum lögum.“