Hafnarfjarðarbær greiddi upp lán 5. ágúst sl. upp á 17 milljónir evra, um 2,6 milljarða króna, þar sem ekki tókst að endurfjármagna lánið eins og stefnt var að.

Hluti 3,5 milljarða króna söluágóða af hlut Hafnarfjarðarbæjar í Hitaveitu Suðurnesja, nú HS Orku og HS veitum, var notaður til þess að greiða lánið upp, samkvæmt upplýsingum frá Gerði Guðjónsdóttur fjármálastjóra bæjarins.

„Ég held að það sé bara enn alveg lokað á Ísland," sagði Gerður aðspurð um hvernig hefði gengið að endurfjármagna lánið.

Lánið var tekið hjá þýska Wurthemberger-bankanum, þeim sama og lánaði Reykjanesbæ 1,8 milljarða. Það lán er nú gjaldfallið og er unnið að endurfjármögnun lánsins að því fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Ekki ljóst enn hvernig Reykjanesbær ætlar að endurfjármagna lánið. Wurthemberger bankinn er nú í slitameðferð.