Nú er verið að vinna að því að loka Hafnarfjarðarhöfn en þann 1. júlí síðastliðinn tóku gildi lög um siglingavernd sem kveða m.a. að því að loka þarf hafnarsvæðum til að koma í veg fyrir að óviðkomandi aðilar eða hlutir komist að skipum og ennfremur að haftasvæðum hafnanna, þar sem farmur er geymdur til útflutnings.

Unnið er að lokun Suðurhafnarinnar og hafnarinnar í Straumsvík í samræmi við lögin um siglingavernd . Sett er upp girðing frá norðurhorni Óseyrarbryggju yfir Fornubúðir í suðausturhorn Fornubúða 5 (SÍF-hússins), úr norðvesturhorni sama húss yfir Cuxhavengötu, þaðan vestur að Skipagötu og vestur fyrir Hvaleyrarbakka.

Fjögur hlið verða á girðingunni og lýkur uppsetningu á þeim í næstu viku. Hliðin verða við Fornubúðir, Cuxhavengötu, á Suðurgarði og á Skipagötu. Þrjú síðastnefndu hliðin verða rafdrifin aksturs- og gönguhlið. Allur aðgangur um hafnarhliðið verður takmarkaður við þá eina, sem eiga þangað brýnt erindi. Allir, sem fá heimild til inngöngu, verða að bera á sér sýnileg auðkenni og hafa sérstök spjöld í gluggum bifreiða meðan þeir eru á hafnarsvæðinu.

Ennfremur verða settar upp myndavélar til eftirlits með hafnarbökkum ásamt innsiglingunni inn í höfnina og lýkur uppsetningu þeirra að mestu í þessar viku og verða upptökur og stillingar prófaðar í næstu viku.

Áætlað er að hafnarsvæðinu verði lokað 1. september en tíminn fram til mánaðarmóta verður notaður til æfinga og prófana.