Hafnafjarðarbær hefur nú bæst í hóp þeirra sveitarfélaga sem hefur opnað aðgengi almennings að bókhaldi sínu. Á föstudag var formlega opnað svæði á heimasíðu bæjarins þar sem bæjarbúar og aðrir geta kynnt sér tekjur og gjöld sveitarfélagsins og skiptingu kostnaðar á kostnaðarlykla, skipulagseiningar og birgja. Þetta kemur fram í frétt á vef Hafnarfjarðarbæjar .

„Með þessu erum við mæta kröfum samfélagsins um gegnsæi enda sjálfsagt og eðlilegt að bæjarbúar geti með skýrum og aðgengilegum hætti séð í hvað fjármagn sveitarfélagsins er notað,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs af þessu tilefni. „Þetta er stórt og mikilvægt skref í átt að bæta aðgengi að upplýsingum. Nú geta bæjarbúar haft betri yfirsýn og tekið virkari og upplýstari þátt í umræðunni um rekstur bæjarfélagsins“.

Markmiðið með þessari aðgerð er að auka aðgengi að fjárhagsupplýsingum og skýra á sem einfaldastan máta og með myndrænum hætti ráðstöfun fjármuna sveitarfélagsins.Undirbúningsvinna fyrir þetta aukna aðgengi hefur staðið í vetur en í byrjun febrúar undirritaði Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri samning við Capacent sem þróaði hugbúnað sem býður upp á öflugar myndrænar greiningar í sjálfsafgreiðslu, aðgang að gagnvirkum skýrslum og sýn á gögn frá ýmsum sjónarhornum.

Hafnarfjörður miðbær
Hafnarfjörður miðbær
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hægt er að skoða bókhald Hafnarfjarðarbæjar hér.