*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Fólk 17. febrúar 2017 18:40

Hafsteinn til GAMMA

Hafsteinn Hauksson hefur bæst við teymi GAMMA í London.

Ritstjórn

Hafsteinn Hauksson hefur gengið til liðs við GAMMA Capital Management Ltd. í London. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á vef sjóðstýringarfélagsins fyrr í dag.

Hafsteinn lauk B.Sc. námi í hagfræði frá Háskóla Íslands og er með meistaragráðu í fjármálum og hagfræði frá London School of Economics. Hafsteinn stundaði á yngri árum nám við Verzlunarskóla Íslands.

Hann hefur starfað hjá ráðgjafarfyrirtækinu Newstate Partners í London frá árinu 2015, en fyrirtækið sérhæfir sig í ráðgjöf á sviði opinberra fjármála, þar á meðal stýringu og endurskipulagningu opinberra skulda.

Hafsteinn var áður hagfræðingur í greiningardeild Arion banka og starfaði einnig sem fjölmiðlamaður með námi, lengst af á fréttastofu Stöðvar 2. Auk þess sem margir kannast við hann úr Morfís heiminum.

Hafsteinn bætist þar með í öflugt teymi starfsmanna GAMMA með starfsaðstöðu í London. Markmið eigenda og stjórnenda GAMMA hefur verið að útvíkka og styrkja grundvöll starfseminnar þar í landi. GAMMA hóf starfsemi í London árið 2015 og í fyrra fékk félagið sjálfstætt starfsleyfi frá breska fjármálaeftirlitinu í Bretlandi.

Leyfið heimilar GAMMA að veita viðskiptavinum sínum víðtæka fjármálaþjónustu, sem felur meðal annars í sér fyrirtækjaráðgjöf og fjárfestingarráðgjöf.

Stikkorð: Gamma Fólk Hafsteinn