Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær sýknaður af sextán ákæruliðum en brotin vörðuðu ýmsa þjófnaði, húsbrot, tilraunir til innbrota og eignaspjöll. Maðurinn játaði háttsemi sína en var sýknaður sökum ósakhæfis. Hann var dæmdur til að greiða Högum, einum brotaþola í málinu, bætur vegna þjófnaðar á grunni ákvæðis í Mannhelgisbálki Jónsbókar.

Brotahrina mannsins hófst í júní síðasta sumar. Meðal þess sem hann var ákærður fyrir var að rispa skilti á rússneska sendiráðinu og tilraun til þess að brjótast inn í lögreglustöðina á Hverfisgötu. Þá stal hann tæplega 286 þúsund króna reiðhjóli, gerði tilraun til að hnupla úlpu að verðmæti 90 þúsund krónur, 25 þúsund króna hreindýraskinni og tveimur kindagærum. Þá stal hann einnig ýmsum smámunum á borð við límbyssu, minnisbók, smokkapakka, regnhlíf, kjöthitamæli og pennaveski svo dæmi séu tekin. Hnútur var hnýttur á brotin síðasta haust er maðurinn var handtekinn.

Fyrir dómi játaði maðurinn undanbragðalaust að hafa viðhaft þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Undir rekstri málsins hafði verið dómkvaddur geðlæknir til að meta geðrænt ástand mannsins. Að mati hans var það afar bágborið en fyrir liggur að maðurinn var nýverið sviptur lögræði tímabundið sökum andlegra veikinda sinna.

Að mati dómsins var maðurinn ósakhæfur á verknaðarstundu og því sýknaður. Kröfu ákæruvaldsins um öryggisgæslu eða annað viðeigandi úrræði var hafnað meðal annars sökum þess að hann væri nú í meðferð á Landspítalanum.

Hagar voru meðal brotaþola í innbrotahrinu mannsins en eitt skiptið stal hann fjórum töskum, heyrnartólum, fatnaði og snyrtivöru úr Hagkaup í Skeifunni. Verðmæti varningsins var tæpar 186 þúsund krónur. Hagar voru eini brotaþolinn sem gerði einkaréttarkröfu um greiðslu skaðabóta.

„Ákærði ber skaðabótaábyrgð gagnvart [Högum] vegna háttsemi sinnar samkvæmt 12. ákærulið, sbr. 8. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar. Einkaréttarkrafan er studd nægjanlegum gögnum og veðrur hún að fullu tekin til greina,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Allur sakarkostnaður málsins, 500 þúsund krónur, greiddist úr ríkissjóði.