Smásölurisinn Hagar kaupir Lyfju fyrir tífalda EBITDU afkomu félagsins á þessu ári, sem er áætluð að verði um 700 milljónir. Því megi áætla að kauptilboð félagsins sem samþykkt hefur verið af fyrirtækjaráðgjöf Virðingar samsvari um 7 milljörðum króna, að því er fram kemur í DV .

Lyfja er stærsta keðja apóteka á Íslandi, en samtals rekur félagið 39 apótek, útibú og verslani um allt landið. Eru þær undir merkjum Lyfju, Apóteksins og Heilsuhússins. Hagar hafa tilkynnt um bindandi kauptilboð í félagið.

Stöðugleikaframlag fyrir 2 milljarða skilar 7

Á síðasta ári reyndist hagnaður Lyfju vera 254 milljónir króna, en veltan nam um 9 milljörðum. Þá var EBITDA félagsins 595 milljónir, en búist er við að hún sé um 100 milljónum hærri á núverandi rekstrarári.

Íslenska ríkið er seljandinn, í gegnum umsýslufélagið Lindarhvoll, sem eignaðist allt hlutabréf í félaginu sem hluta af stöðugleikaframlagi þrotabús Glitnis. Var félagið metið á tvo milljarða króna þegar það var notað sem greiðsla, svo nú má vera ljóst að stöðugleikaframlagið sé að skila ríkinu um fimm milljörðum króna til viðbótar.

Tilboð markaðsráðandi aðila háð samþykki Samkeppniseftirlitsins

Mánudaginn 7. nóvember kom fram í tilkynningu í kauphöllinni, að Hagar hafði sett fram skuldbindandi kauptilboð í alla hluti í Lyfju, en tilteknir fjárfestar höfðu verið teknir áfram í annan hluta söluferlisins sem mikill áhugi var fyrir.

Tilboð Haga reyndist hæst, en það er með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og að samþykki Samkeppniseftirlitsins fengist fyrir viðskiptunum, enda eru Hagar með markaðsráðandi stöðu á smásölumarkaði.

Hagar eru að langstærstum hluta í eigu lífeyrissjóðanna, eða meira en 50% og eru engir einkafjárfestar á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins.

8 milljarða greiddar niður á fjórum árum

Góð afkoma félagsins síðustu ár hefur verið nýtt til að greiða niður skuldir félagsins, en við lok síðasta rekstrarárs námu vaxtaberandi skuldir þess einungis rúmlega 700 milljónum króna, og höfðu þær lækkað um 8 milljarða á einungis fjórum árum.

Er það því vel undirbúið fyrir fjárfestingar með eiginfjárhlutfall um 55% og markaðsvirði í tæpum 62 milljörðum króna.