Hagar hafa skilað inn fullmótuðum tillögum til Reykjavíkurborgar um uppbyggingu á fimm stöðum í Reykjavík í samræmi við stefnu borgarinnar um þéttingu byggðar og „kaupmanninn á horninu“.

„Við fórum í þessa vinnu í kjölfar ákvörðunar Reykjavíkurborgarinnar um að þrengja að bensínstöðvum en tillögurnar eru í fullu samræmi við nýja stefnu borgarinnar,“ sagði Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Haga, á kynningarfundi fyrir fjárfesta í morgun.

Stefnan borgarinnar um „kaupmanninn á horninu“ miðast við að efla verslun og þjónustu innan hverfa þannig að auðsótt sé fyrir íbúa hverfisins að sækja þjónustu fótgangandi. Markmiðið er að hlutfall þeirra íbúa sem eru innan við 400 metra göngufjarlægð frá dagvöruverslun hækki verulega frá 54% árið 2008. Þá gerir stefnan ráð fyrir að slíkar hverfisverslanir séu ekki stærri en 1.000 fermetrar.

Tillögur Haga gera ráð fyrir verslunarhúsnæði fyrir Bónus, sem uppfylla ofangreind skilyrði, auk bensínsölu á sumum lóðanna.

Á Stekkjarbakka við Elliðaárdal er stefnt að því að byggja um 720 íbúðir og 3.500 fermetra atvinnuhúsnæði fyrir verslanir og þjónustu þar sem gert er ráð fyrir Bónus verslun og bensínsölu á vegum Olís.

uppbygging Haga á Stekkjabakka
uppbygging Haga á Stekkjabakka

Við Fjallkonuveg í Grafarvogi er fyrirhugað að reisa Bónusverslun sem uppfyllir skilyrði borgarinnar um „kaupmanninn á horninu“ og Olís bensínstöð, en auk þess er gert ráð fyrir að allt að 12 íbúðir verði á hæðunum fyrir ofan verslunina.

uppbygging Haga á Fjallkonuveg
uppbygging Haga á Fjallkonuveg

Hagar stefna sömuleiðis að uppbyggingu verslunarhúsnæðis við Skúlagötu sem falli undir stefnu borgarinnar um „Kaupmanninn á horninu“ þar sem bæði Bónus og Olís verði til húsa. Sagði Finnur á kynningarfundinum í morgun að veruleg eftirspurn sé eftir verslun Bónus í miðborginni og fyrirtækinu hafi borist margar fyrirspurnir þess efnis eftir að verslun Bónus á Hallveigarstíg var lokað.

uppbygging Haga við Skúlagötu
uppbygging Haga við Skúlagötu

Á horni Egilsgötu og Snorrabrautar er sömuleiðis stefnt að uppbyggingu versluna- og þjónustuhúsnæðis, sem fellur undir stefnu borgarinnar um „kaupmanninn á horninu“, auk um 40 íbúða, en ekki ert gert ráð fyrir bensínsölu á svæðinu.

uppbygging Haga við snorrabraut
uppbygging Haga við snorrabraut

Loks hafa Hagar hug á uppbyggingu við Ánanaust þar sem bæði Bónusverslun og bensínsala verði til húsa.