Um leið og Frakkar höfðu sigrað Íslendinga í úrslitaleik Ólympíuleikanna í handknattleik karla voru síðustu gullmedalíurnar afhentar. Þau lönd sem unnu flest verðlaun á leikunum, Bandaríkin og Kína, enduðu mótið á svipuðum nótum og Íslendingar. Bandaríkin fengu silfurverðlaun í lokaúrslitaleik sínum gegn Ungverjalandi í sundknattleik. Zhang Zhilei laut síðan í lægra haldi fyrir Roberto Cammarelle í þungavigtarflokki hnefaleika.

Kína hlaut flest gullverðlaun á leikunum núna, alls 51 talsins. Bandarískir íþróttamenn hirtu alls 36 gullverðlaun, en sé litið til heildarverðlaunafjölda tróna Bandaríkin fyrir ofan Kína með 110 verðlaun, en Kína nákvæmlega 100. Báðar þjóðir hafa því ástæðu til að gera tilkall til íþróttalegra yfirburða hvor gagnvart annarri.

Velgengni Kína kemur hagfræðingum lítið á óvart. Þrátt fyrir að erfitt sé að spá fyrir um hvaða land sigrar í einstökum greinum, er hægt að spá fyrir um það með nokkurri nákvæmni hver heildarverðlaunafjöldi hvers lands fyrir sig verður. Aðhvarfsgreining á öllum vetrar- og sumarólympíuleikum frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar leiðir í ljós að tveir þættir eru ráðandi í velgengni þjóða á leikum – heildarmannfjöldi og landsframleiðsla á mann. Aðrir þættir sem skipta máli og hafa talsverð áhrif eru loftslag viðkomandi landa, hvort alræðisstjórn er við lýði og einnig skiptir nokkru máli fyrir þjóðir hvort þær eru á heimavelli, eins og tilfellið var með Kínverja í ár.

Fyrstu tvær breyturnar eru mikilvægastar. Kína er miklu fjölmennara land en Bandaríkin, þrátt fyrir að fólki þar fjölgi ívið hægar en vestanhafs. Hins vegar hefur landsframleiðsla á mann aukist mun meira í Kína á síðustu árum; því mátti gera ráð fyrir að góður bunki verðlauna færi til þeirra.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .