Hagnaður Arion banka nam 3,5 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi. Þetta er 3,5-sinnum meiri hagnaður en á sama tíma í fyrra þegar hann nam einum milljarði króna. Samanlagður hagnaður Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins nemur því 13,6 milljörðum króna. Það er 4,7 milljörðum krónum meira en á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri bankans að af hagnaðinum skrifist 3,8 milljarðar króna á endurmat á lánum bankans til fyrirtækja.

Rekstrartekjur námu 34 milljörðum króna á tímabilinu samanborið við 23,2 milljarða í fyrra. Þetta er rúmlega 46% aukning á milli ára.

Vaxtatekjur námu á sama tíma 16,8 milljörðum króna samanborið við 16,4 milljarða tekjur í fyrra.

Arðsemi eigin fjár var 17,6% á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 10,4% í fyrra.  Þar af var arðsemi af reglulegri starfsemi rúm 10%.

Eiginfjárhlutfall Arion banka var 21,8% í september.

Þá kemur fram í uppgjörinu að skattar og önnur opinber gjöld á tímabilinu námu samtals um 4,4 milljörðum króna. Þar af nam reiknaður tekjuskattur 3,1 milljarði króna, sérstakur bankaskattur 684 milljónum króna og atvinnutryggingagjald 607 milljónum króna. Að auki voru greiddar 43 milljónir króna til embættis umboðsmanns skuldara og 158 milljónir króna til FME.

Uppgjör Arion banka

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, á fundi Deloitte, Kauphallarinnar og Viðskiptaráðs um virkan hlutabréfamarkað í Turninum þann 24.11.11.
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, á fundi Deloitte, Kauphallarinnar og Viðskiptaráðs um virkan hlutabréfamarkað í Turninum þann 24.11.11.
© BIG (VB MYND/BIG)
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka.