Hagnaður Axis Húsgagna ehf. nam tæpum 2,4 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við hagnað upp á tæpar 5,4 milljónir árið 2009.

Þetta kemur fram í ársreikningi Axis. Axis húsgögn er sem kunnugt er hönnunar-, framleiðslu- og sölufyrirtæki á innréttingum og húsgögnum. Félagið er í eigu þeirra Eyjólfs og Gunnars Eyjólfssona. Það var stofnað árið 1935 af Axel Eyjólfssyni og hefur verið í eigu sömu fjölskyldu síðan þá.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir fjárhagsliði nam á síðasta ári tæpum 2,2 milljónum króna, samanborið við tæpar 3,2 milljónir árið áður. Vaxtatekjur félagsins drógust verulega saman á milli ára, námu tæpri 1 milljón á síðasta ári samanborið við 4,7 milljónir árið áður. Þannig nam hagnaður fyrir skatt á síðasta ári tæpum 2,7 milljónum króna, samanborið 6,7 milljónir árið áður.

Eignir félagsins jukust þó nokkuð á milli ára og námu tæplega 199 milljónum króna í árslok 2010, samanborið við 180 milljónir árið 2009.

Eigið fé í árslok nam 126,5 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi, samanborið við 124,1 milljón árið áður. Skuldir félagsins jukust lítillega á milli ára og námu 72 milljónum í árslok 2010, samanborið við 56 milljónir í árslok 2009.

Samkvæmt skýrslu stjórnar félagsins var ekki greiddur út arður fyrir árið 2010.

Eyjólfur í AXIS
Eyjólfur í AXIS
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Eyjólfur Eyjólfsson, framkvæmdastjóri Axis.