Byggðastofnun skilaði hagnaði upp á 188,9 milljónir króna í fyrra. Um talsverðan viðsnúning er að ræða frá fyrra ári en árið 2012 nam tap Byggðastofnunar 152,8 milljónum króna. Tekið er fram í uppgjöri Byggðastofnunar að hagnaðurinn skýrist fyrst og fremst með því að 5. júní 2013 staðfesti Hæstiréttur Íslands úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Byggðastofnunar gegn Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., þar sem krafa Byggðastofnunar að fjárhæð 271,3 milljónir króna var viðurkennd sem forgangskrafa. Höfðu 238 milljónir króna af þeirri kröfu áður verið afskrifaðar.

Fram kemur í uppgjöri Byggðastofnunar að hreinar vaxtatekjur námu 437,4 milljónum króna samanborið við 593,8 milljónir árið 2012. Laun og annar rekstrarkostnaður nam 373,6 milljónum króna samanborið við 312,7 milljónir árið 2012. Þá kemur fram í uppgjörinu að framlög í afskriftarreikning útlána, og matsbreytingar hlutafjár voru 51 milljón borið saman við 444,9 milljónir ári fyrr.

Eignir námu 14.872 milljónum króna og hafa lækkað um 1.866 milljónir frá árinu 2012.  Þar af voru útlán og fullnustueignir 11.570 milljónir. Skuldir námu 12.458 milljónum króna og lækkuðu um 2.091 milljón á árinu 2012.

Alþingi samþykkti í fjárlögum 2012 heimild til að efla eigið fé Byggðastofnunar um allt að 2.000 milljónir króna.  Af því framlagi voru 1.750 milljónir króna greiddar til stofnunarinnar í janúar 2012 en eftirstöðvarnar, 250 milljónir króna greiddar í janúar 2013.