*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 27. febrúar 2019 16:34

Hagnaður Festi dróst saman um 26%

Á fjórða ársfjórðungi 2018 nam hagnaður Festi 327 milljónum en árshagnaðurinn stóð í stað þrátt fyrir sameiningu.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Hagnaður Festi, móðurfélags N1, Krónunnar, Elko og Bakkans vöruhótels, dróst saman á fjórða ársfjórðungi 2018 um 26% frá sama tímabili árið áður, úr 442 milljónum króna niður í 327 milljónir króna. Þetta er fyrsti heili ársfjórðungurinn sem sameining Festi við N1 kemur inn í rekstrartölurnar.

Töluverður munur er þó á tekjum og gjöldum félagsins þarna á milli, enda kom inn í þennan ársfjórðung 3.249 milljóna króna framlegð af vörusölu félaga í samstæðu Hlekks (sem áður hét Festi, sem varð nafn móðurfélagsins þegar N1 sameinaðist því), frá 1. september, þegar sameiningin tók gildi.

EBITDA Hlekks var 1.148 milljónir króna og hagnaður 357 milljónir króna frá sama tímapunkti.

Þannig jókst framlegð Festi af vörusölu um 100,2% á milli áranna fyrir fjórða ársfjórðunginn, eða úr 2.427 milljónum í 4.858 milljónir, EBITDA jókst úr 837 milljónum í 1.529 og leigutekjur fasteigna og aðrar rekstrartekjur úr 148 milljónum í 370 milljónir. Á sama tíma jókst rekstrarkostnaður félagsins úr 1,7 milljörðum síðustu þrjá mánuði ársins 2017 í 3,7 milljarða á sama tímabili í ár.

Að sama skapi ef horft er á árið í heild sinni, jókst framlegð af vörusölu Festi um 37,2%, úr tæplega 10 milljörðum í 13,7 milljarða, EBITDA úr 3,5 milljörðum í 4,6 milljarða og leigutekjurnar og aðrar rekstrartekjur úr 442 milljónum í 776 milljónir. Rekstrarkostnaðurinn jókst að sama skapi á milli áranna úr 6,9 milljörðum í tæplega 9,9 milljarða króna.

EBITDA Festi (áður N1) að undanskildum kostnaði við kaupin á Hlekk (áður Festi) nam 1.630 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi samanborið við 844 á fjórða ársfjórðungi 2017. Hagnaður ársins hjá Festi dróst eilítið saman á árinu eða úr 2.071 milljónir króna í 2.059 milljónir króna.