Heilsuræktarstöðin Hreyfing hagnaðist um tæplega 67 milljónir króna á síðasta ári og stóð hagnaðurinn nánast í stað frá fyrra ári. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársreikningi félagsins.

Tekjur Hreyfingar námu 794 milljónum króna og jukust þær um 6% frá árinu 2017. Þá námu rekstrargjöld 687 milljónum króna og jukust um 40 milljónir frá fyrra ári. Eignir námu 484 milljónum króna og eigið fé 398 milljónum. Eiginfjárhlutfall var því 82% í lok síðasta árs.

Laun og launatengd gjöld námu 277 milljónum og hækkuðu um 14 milljónir frá fyrra ári. 28 starfsmenn störfuðu hjá fyrirtækinu í fyrra, en árið á undan voru þeir jafnmargir. Ágústa Johnson er framkvæmdastjóri Hreyfingar. Kólfur ehf. er stærsti eigandi Hreyfingar, með rúmlega 45% hlut í sinni eigu, en meirihlutaeigandi félagsins er Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins.