Hagnaður Ikea jókst um 10% á síðasta rekstrarári í samanburði við fyrra ár, samkvæmt ársuppgjöri félagsins. Alls námu sölutekjur um 24,7 milljörðum evra. Rekstrarár félagsins nær til 31 ágúst ár hvert.

Aukinn hagnaður er helst rakinn til aukinnar sölu í Rússlandi, Kína og Póllandi, að því er breska ríkisútvarpið BBC greinir frá. Alls nam hagnaður 3 milljörðum evra, þrátt fyrir 3% sölusamdrátt í Bretlandi.

Fram kemur í frétt BBC að Ikea hefur reynt að bregðast við samdrætti í Bretlandi með því að lækka vöruverð um 5% auk þess að bæta vöruúrval á netinu. Aðrir markaðir hafa vegið á móti neikvæðri þróun í Bretlandi. Ikea opnaði nýjar verslanir í Kína, Þýskalandi, Rússlandi, Sviss og í Bandaríkjunum. Alls fjölgaði störfum um 4000 við opnun nýrra verslana.