Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta var 3,5 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 4,2 milljarða króna á sama tímabili 2013, að því er kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Arðsemi eigin fjár var 7,9% á fjórðungnum, en var 10,6% á sama tíma í fyrra. Hreinar vaxtatekjur lækkuðu úr 7,4 milljörðum á þriðja fjórðungi 2013 í 7,1 milljarð á sama tímabili í ár og hreinn vaxtamunur lækkaði úr 3,5% í 3,1%, sem er sagt í takt við langtíma áætlanir bankans.

Hreinar þóknanatekjur hækkuðu um 16% milli ára, voru 2,5 milljarðar á þriðja fjórðungi 2013 en 2,8 milljarðar í ár.

Á fyrstu níu mánuðum ársins nam hagnaður Íslandsbanka 18,2 milljörðum króna, samanborið við 15,4 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2013. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 13,8% á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 13,4% á sama tímabili 2013, þrátt fyrir að eigið fé bankans hækkaði um 14% á milli ára úr 160 milljörðum í 181 milljarða króna.

Eiginfjárhlutfall bankans var 29,4%, samanborið við 28,4% í lok árs 2013 og eiginfjárhlutfall A var 26,3%, en var 25,1% um síðustu áramót. Heildareignir voru 931 milljarðar króna, en voru 866 milljarðar um síðustu áramót, og jukust því um 7,5% frá áramótum.