Íslandshótel högnuðust um 551 milljón króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 172 milljónir króna á milli ára. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins.

Rekstrartekjur samstæðu Íslandshótela námu tæplega 5,2 milljörðum króna á árinu, en þær námu 4,5 milljörðum króna ári fyrr. Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði nam tæplega 1,2 milljörðum króna og jókst um 250 milljónir króna frá fyrra ári.

Eignir fyrirtækisins námu 12,3 milljörðum króna í lok ársins en þar af nam virði fasteigna og lóða 10,2 milljörðum. Skuldir námu 10,5 milljörðum króna og nam eigið fé félagsins 1,9 milljörðum króna.

Grand Hótel, Fosshótelin, Hótel Reykjavík Centrum og Best Western Hótel Reykjavík eru öll í eigu Íslandshótela. Davíð Torfi Ólafsson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.