Hagnaður Landsvirkjunar á þriðja ársfjórðungi lækkaði úr 38,8 milljónum Bandaríkjadala í 34,8 milljónir dala, eða um 10,4%. Miðað við núverandi gengi nam hagnaðurinn því um 4,3 milljörðum íslenskra króna í júlí til september.

Á sama tíma jukust tekjur félagsins úr 115 milljónum dala í 129,3 milljónir dala, en útgjöldin hækkuðu úr 53,1 milljón dala í 62,7 milljónir.

14% hækkun ef miðað er við 9 mánaða tímabil

Ef horft er á fyrstu 9 mánuði ársins jókst hagnaður félagsins úr 78,5 milljónum dala í 89,3 milljónir, eða um 13,7%. Rekstrartekjur námu 398,8 milljónum dala, eða sem samsvarar 44,3 milljörðum íslenskra kr´na og hækka um 51,5 milljónir dala, eða 14,8% frá sama tímabili árið áður.

EBITDA nam 291,7 milljónum dala, eða 32,4 milljörðum króna á fyrstu 9 mánuðum ársins. EBITDA hlutfall er 73,1% af tekjum, en var 71,9% á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 133,4 milljónum dala, eða sem samsvarar 14,8 milljörðum króna, en var 114,8 milljónir dala á sama tímabili árið áður og hækkar því um 16,2% milli tímabila.

Nettó skuldir Landsvirkjunar lækkuðu um 102,6 milljónir dala, eða 11,4 milljarða króna frá áramótum og voru í lok september 1.940,0 milljónir dala, eða 215,3 milljarðar króna. Handbært fé frá rekstri nam 222,7 milljónum dala, eða 24,7 milljörðum króna sem er 11,1% hækkun frá sama tímabili árið áður.

Skuldir haldi áfram að lækka hratt

Hörður Arnarson, forstjóri segir rekstur Landsvirkjunar hafa gengið vel á fyrstu þremur fjórðungum ársins 2018. „Fjölbreytt eftirspurn var frá bæði núverandi og nýjum viðskiptavinum og jókst orkusala Landsvirkjunar um 345 GWst á tímabilinu,“ segir Hörður.

„Við sjáum nú fyrir endann á byggingu virkjana á Þeistareykjum og við Búrfell og er aftur lögð megináhersla á lækkun skulda þannig að arðgreiðslur félagsins geti aukist. Nettó skuldir Landsvirkjunar lækkuðu um 103 milljónir USD (11,4 ma.kr.) frá áramótum og áætlanir gera ráð fyrir að skuldir lækki nokkuð hratt á næstu misserum.“