Samstæða Lyfju hf. hagnaðist um 293 milljónir króna á síðasta ári. Það er töluverð aukning frá fyrra ári þegar hagnaðurinn nam 127 milljónum króna. Þetta má sjá í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins.

Vörusala nam 8.448 milljónum króna og jókst um tæplega 220 milljónir króna milli ára. Kostnaðarverð seldra vara nam 5.731 milljón króna og nam framlegð félagsins því 2.717 milljónum króna.

Fjögurra milljarða viðskiptavild

Eignir samstæðunnar námu 5.937 milljónum króna í lok ársins, en þar af er viðskiptavild félagsins metin 3.946 milljónir króna. Þá námu vörubirgðir 843 milljónum króna. Skuldir voru 3.369 milljónir króna og nam eigið fé fyrirtækisins því 2.567 milljónum króna í lok ársins.

Haf Funding Limited, sem er undir yfirráðum Glitnis, fer með 85% eignarhlut í Lyfju. Þá á Glitnir 15% í fyrirtækinu.