Marel hagnaðist um 13,1 milljón evra, jafnvirði 2.186 milljónir króna, á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er 48% aukning á milli ára en hagnaðurinn nam 8,8 milljónum evra á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri fyrirtækisins að tekjur hafi numið 184,9 milljónum evra og er það 20,4% aukning frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 27,4 milljónum evra, sem jafngilti 14,8% af tekjum. Til samanburðar nam EBITDA-hagnaður á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs 23,3 milljónum evra.

Þá segir í uppgjörinu að pantanabók Marel hafi verið sterk í lok fjórðungsins og hljóðað upp á 201 milljónir evra samanborið við 169 milljónir evra á sama tíma í fyrra.

Þá var vöxtur Marel mestur í Asíu og í S-Ameríku og vóg það upp á móti hægari vexti í Bandaríkjunum, að því er segir í uppgjörinu.