Olíufélagið N1 hf. hagnaðist um 962,7 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi samkvæmt nýju árshlutauppgjöri . Dróst hagnaður félagsins saman um 10,2% milli ára. Á fyrstu níu mánuðum ársins hagnaðist N1 um 1,6 milljarða borið saman við 1,9 milljarða á sama tímabili 2016 og minnkaði hagnaður félagsins því um 14,4%.

Framlegð N1 af vörusölu nam 3,5 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi en var 3,4 milljarðar á sama tímabili árið 2016. Jókst framlegðin því um 2,8% milli ára og skýrist aukningin að mestu af hagstæðri þróun á heimsmarkaðsverði olíu. Á fyrstu níu mánuðum ársins var framlegð 8,6 milljarðar og breyttist lítið milli ára. EBITDA N1 var 1,4 milljarðar á þriðja ársfjórðungi og minnkaði um 4,3% milli ára. Á fyrstu níu mánuðum ársins var EBITDA 2,7 milljarðar og minnkaði um 8,5% milli ára.

Á þriðja ársfjórðungi minnkaði selt magn á bensíni hjá N1 um 9,5%. Selt magn á gasolíu jókst hins vegar um 7%.

Eignir N1 námu rúmlega 29 milljörðum í lok september. Eigið fé var 13,4 milljarðar og eiginfjárhlutfall 46,4%. Arðsemi eigin fjár var 17,2% á fyrstu níu mánuðum ársins borið saman við 33,2% á sama tíma í fyrra. Handbært fé N1 var rúmlega 3 milljarðar í lok september og minnkaði um 20,3% milli ára.