Orkuveita Reykjavíkur tilkynnti um hagnað uppá 2,535 milljarða króna fyrstu þrjá mánuði ársins sem er lakari en á sama tíma í fyrra, þegar hann var 3,3 milljarðar, en árshlutareikningur samstæðu OR fyrir 1. ársfjórðung 2016 var samþykktur af stjórn OR í dag.

Segir í fréttatilkynningu frá OR að þó tekjur hafi vaxið vegi hærri laun með nýjum kjarasamningum á móti. Jafnframt er tekið fram að skýringin á því að heildarafkoma samstæðunnar sé lakari í ár en í fyrra sé fyrst og fremst vegna lægra álverðs og lægra gengis bandaríkjadals, sem færist til gjalda í fjármagnsliðum uppgjörsins.

Nam rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) um 4850 milljónum króna en hann var 4831 milljónir króna fyrstu þrjá mánuði ársins 2015. Í tilkynningunni er haft eftir Bjarni Bjarnason forstjóra OR að fjárhagurinn sé að styrkjast hægt og bítandi á þessu síðasta ár Plansins svokallaða, sem er aðgerðaráætlun sem hleypt var af stokkunum vorið 2011.

Er hann bjartsýnn á að nú styttist í að fjárhagsleg skilyrði til arðgreiðslna verði uppfyllt enda hafi meginmarkmiði Plansins verið náð. Nú sé verið að vinna að framtíðarsýn á rekstri samstæðunnar sem taki við þegar Planinu ljúki en hún verði byggð á greiningu á afkomu allra rekstrarþátta OR sem nú standi yfir.