Sjávarútvegsfyrirtækið Soffanías Cecilsson hf., sem gerir út tvö skip og saltfiskverkun í Grundarfirði, hagnaðist um 201,6 milljónir króna á tímabilinu 1. september 2016 til 31. ágúst 2017 samanborið við rúmlega milljarð á sama tímabili árið á undan.

Rekstrartekjur námu 871 milljón og drógust saman um 30% milli ára. Rekstrarhagnaður nam tæplega 207 milljónum en var 430,8 milljónir árið áður.

Eignir félagsins námu 2,1 milljarði í lok ágúst og var bókfært virði eigin fjár neikvætt um 1,1 milljarð. FISK Seafood, í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, keypti fjölskyldufyrirtækið Soffanías Cecilsson í september síðastliðnum.

Sigurður Sigurbergsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Soffaníasar Cecilssonar, Rúnar S. Magnússon stjórnarformaður og Magnús Soffaníasson, sem áður átti um 30% hlut í félaginu, voru í 2. til 4. sæti á lista ríkisskattstjóra yfir 40 hæstu skattgreiðendur síðasta árs.