Sberbank, stærsti banki Rússlands, hagnaðist um 181,6 milljarða rúbla á síðasta ári, jafnvirði um 6,4 milljarða dollara. Hagnaður bankans á síðasta ári er sjö sinnum meiri en árið 2009.

Sberbank er í eigu rússneska ríkisins. German Gref, forstjóri bankans, segir að bankinn verði mögulega einkavæddur að hluta á seinni hluta ársins. Fjallað er um málið á vef BBC.

Áætlanir ríkisins þar í landi eru að afla rúmlega 1000 milljarða rúbla á þremur árum með einkavæðingu fyrirtækja. Í febrúar sl. seldi ríkið 10% hlut í VTB banka fyrir 96 milljarða rúbla. VTB er annar stærsti banki landsins.