Hagnaður tryggingafélagsins VÍS nam 2.154 milljónum króna á síðasta ári. Þetta er talsverður samdráttur á milli ára en ári fyrr nam hann 3.025 milljónum króna. Þar af hagnaðist félagið um 111 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi í fyrra borið samana við 1.279 milljónir á fjórða ársfjórðungi árið 2012.

Hagnaður eftir skatta nú svarar til 86 aura á hlut.

Fram kemur í uppgjöri VÍS að iðgjöld ársins námu 16.090 mlljónum króna á árinu öllu en 4.061 krónur á fjórða ársfjórðungi árið 2012.

Framlegð af vátryggingarekstri nam 503 milljónum króna í fyrra, þar af var hún upp á 42 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi. Árið 2012 nam framlegðin 385 milljónum króna á árinu öllu. Hún var neikvæð um 15 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi árið 2012.

Heildareignir í lok ársins námu 46.254 milljónum króna borið saman við 43.452 milljónir í lok árs 2012.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, segir í uppgjörstilkynningu rekstur félagsins hafa gengið vel í fyrra. „Meginskýringin á minni hagnaði í fjórðungnum annars vegar stórt tjón, sem tilkynnt var til félagsins á tímabilinu og hækkar eigin tjónakostnað um 150 milljónir króna og hins vegar neikvæð þróun á markaðsverði ríkistryggðra skuldabréfa og neikvæð áhrif styrkingar krónunnar á eignasafn félagsins.  Á móti kemur að innlent hlutabréfasafn félagsins skilaði ágætri ávöxtun.  Vátryggingarekstur á fjórða ársfjórðungi ársins var betri en hann var á fjórða ársfjórðungi 2012,“ segir hún.