Aurum Holdings stærsta skartgripafyrirtæki Bretlands, sem rekur meðal annars verslanirnar Goldsmiths, Mappin & Webb, Watches of Switzerland og mydiamonds.com, hefur birt sölutölur fyrir síðastliðið ár.

Velta fyrirtækisins var 261.7 milljónir punda og jókst um 7.7 prósent frá fyrra ári. Að sama skapi jókst salan um 7.4 prósent og hagnaður fyrir skatta jókst um 15 milljónir punda.

Þetta kemur fram á vef Baugs en Baugur er leiðandi hluthafi í félaginu.

Þá kemur fram að vegna söluaukningar ódýrari úra á kostnað þeirra dýrari hefur rekstrarhagnaður lækkað um 2,6 prósent og er nú 9.3 milljónir punda. Nettó skuldir hafa hins vegar lækkað úr 83.7 milljónum punda í  80 milljónir í kjölfar endurfjármögnunar í desember 2006.