Hagnaður sænska fyrirtækisins Betssons jókst um 183% á síðasta ársfjórðungi en Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki á 24,5% hlut í félaginu. Velta félagsins jókst um 100% á sama tíma og nam 137,6 milljónum sænskra króna, eða um 1.300 milljónum íslenskra króna. Hagnaður félagsins nam 35,4 milljónum sænskra króna á fjórðungnum, eða 330 milljónum króna.

Félagið er skráð á Nordic Exchange Small Cap markaðinn og var gengi bréfanna í fyrradag 32,8 en Straumur Burðarás keypti sín bréf á genginu 24. Þau hafa þannig hækkað um 36% en eftir töluverða lækkun á síðasta ári hefur verið mikið flug á bréfunum undanfarið. Það var Burðarás sem fjárfesti í félaginu á sínum tíma og keypti hlutinn af Kinnevik fjárfestingarfélaginu. Skúli Valberg Ólafsson situr í stjórn Betsson fyrir hönd Straums-Burðarás.

Betsson er 40 ára gamalt félag en hóf veðmálastarfsemi á netinu 1999 og rekur nú þrjú vefsvæði: Betsson.com, CasinoEuro.com og CherryCasino.com. Dótturfélag Betsson, Betsson Online, tvöfaldaði tekjur sínar upp í 112,8 milljónir sænskra króna á sama tíma og rekstrarhagnaður þrefaldaðist og nam 25,5 milljónum sænskra króna. Í frétt félagsins kemur fram að Betsson Online hélt áfram að stækka á öllum markaðssvæðum. Virkum notendum að starfsemi félagsins fjölgaði um 46% á síðasta ársfjórðungi og voru þá um 92.600 talsins.

Velta síðasta árs jókst um 93% og nam 391,5 milljónum sænskra króna eða 3,6 milljörðum króna og hagnaður nam 560 milljónum króna. Hagnaður eftir skatta nam 44,3 milljónum. Í frétt félagsins kemur fram að þetta ár hefur farið mjög vel af stað en ætlunin er að skrá sérstaklega Net Entertainment deild félagsins en hún selur búnað fyrir veðmálastarfsemi til annarra félaga í sama rekstri.