Vörustjórnunar- og póstfyrirtækið Deutsche Post World Net greindi frá því í gær að hagnaður fyrirtækisins hefði minnkað á fjórða ársfjórðungi. Nam hagnaður félagsins 643 milljónum evra samanborið við 876 milljóna evra hagnað árið á undan og lækkaði því um 24%, sem var nokkuð undir væntingum greiningaraðila.

Engu að síður búast stjórnendur fyrirtækisins enn við því að hagnaður af rekstri Deutsche Post á þessu ári muni verða 3,6 milljarðar evra. Markus Remis, sérfræðingur HVB bankans, er hins vegar ekki bjartsýnn á að stjórnendur fyrirtækisins nái settu markmiði. Hlutabréf í Deutsche Post féllu um 4,8% í kjölfar afkomutilkynningar félagsins í gær.