EasyJet birti í dag uppgjör fyrir rekstrarár félagsins sem lauk 30. september síðastliðinn en félagið birtir uppgjör á hálfsárs fresti. Seinni árshelmingur fyrirtækisins er því frá apríl út september. Uppgjörið er rakið í Hálffimm fréttum KB banka. Velta fyrirtækisins á seinni helmingi rekstrarársins nú jókst frá sama tíma í fyrra. Velta tímabilsins nam um 651 milljónum punda en fyrir sama tímabil í fyrra nam veltan 559 milljónum punda, sem er 16,5% aukning.

Hagnaður seinni 6 mánaða rekstrarársins nú er þó rúmum 23% lægri en fyrir sama tímabil í fyrra. Fyrir tímabilið apríl ? september 2004 nam hagnaðurinn 60,8 milljónum punda en fyrir sama tímabil árið 2003 nam hagnaðurinn 79,3 milljónum punda. Spár greiningaraðila gerðu ráð fyrir um 62 milljón punda hagnaði á tímabilinu segir í Hálffimm fréttum KB banka.

"Ástæður versnandi afkomu liggja m.a. í harðnandi samkeppni á flugmarkaði en meðalfargjöld félagsins á tímabilinu lækkuðu um 4%. Til merkis um harðnandi samkeppni má nefna að stjórnendur EasyJet segja að síðustu þrjú árin hafi fjöldi lágfargjalda flugfélaga í Evrópu farið úr 7 félögum í a.m.k. 47 félög. Auk harðnandi samkeppni hefur eldsneytisverð verið mjög hátt en eldsneytiskostnaður er um 14% af öllum rekstrarkostnaði félagsins. Rétt er að benda á að þó aðrar tekjur félagsins en fargjöld séu enn lítill hluti heildartekna (tæp 6%) þá jukust þær um 17% á seinni hluta rekstrarársins og er það markmið félagsins að auka þær tekjur enn frekar til að fá betra jafnvægi í reksturinn," segir í Hálffimm fréttum.

Þar er einnig bent á að velta EasyJet á rekstrarárinu í heild jókst frá fyrra ári úr 931,8 milljónum punda í 1.091 milljón eða um 17,1%. Hagnaður félagsins á rekstrarárinu í heild nam um 41,1 milljón punda miðað við 32,4 milljónir á síðasta rekstrarári, sem er aukning um 26,9%. EBITDAR hagnaður (hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og flugvélaleigu) EasyJet jókst úr 180,9 milljónum punda í 189,3 milljónir eða um 4,64% á milli ára. EBIT hagnaður jókst einnig úr 48,4 milljónum punda í 50,5 milljónir eða um 4,34%. Framlegð félagsins er hinsvegar að minnka. EBITDAR framlegð EasyJet lækkar um rúm 2% frá fyrra ári og er nú 17,35% og EBIT framlegð lækkar um 0,6% og er nú 4,63%.

"Þessi lækkun á framlegð á sér stað þrátt fyrir að fjöldi farþega á milli rekstrarára hafi aukist um 20% og sætanýting hafi batnað um 0,4%, en hún er nú 84,5%, sem er vísbending um hversu hörð samkeppni er á markaðinum. Umsvif félagsins hafa aukist nokkuð en í lok september voru áfangastaðir EasyJet 44 en í upphafi rekstrarársins 38. Auk þess fjölgaði félagið flugleiðum úr 105 í 153. EasyJet hafa aukið við flugflota sinn á tímabilinu og í lok september taldi hann 92 vélar en var 74 vélar í upphafi rekstrarársins. Einnig hefur samsetning flugflotans breyst en félagið hefur fækkað Boeing 737 vélum sínum og fengið Airbus vélar í stað þeirra.
Það sem af er ári hefur gengi EasyJet lækkað um rúmlega 35% og hefur félagið lækkað mest þeirra félaga sem mynda Evrópuvísitölu flugfélaga. Gengi EasyJet hefur þó hækkað um 43% frá lokagengi 21. október en Flugleiðir keyptu 8,4% hlut í félaginu þann 22. október og 1,7% þann 26. október, og eiga því samtals 10,1% hlut í félaginu," segir í Hálffimm fréttum.