Hagnaður Íslenskra aðalverktaka nam 214 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 80 milljónir á sama tímabili í fyrra. Rekstrartekjur félagsins jukust um 9% og námu tæpum 4,2 milljörðum króna. Rekstrargjöld jukust hins vegar um einungis 3% og námu tæpum 3,7 milljörðum króna. Hagnaður fyrir afskriftir nam 530 milljónum króna á móti 273 milljónum árið áður og skýrir betri framlegð ásamt minni afskriftum hagnaðaraukningu fyrirtækisins milli ára.

Afskriftir tímabilsins eru 128 milljónir króna og drógust saman um þriðjung milli ára. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta nam 402 milljónum króna á tímabilinu, til samanburðar við 87 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2003.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að ágætlega hefur gengið að afla félaginu verkefna á fyrri hluta ársins. Helstu verkefni sem félagið vann að á fyrri hluta árs 2004 voru bygging Rannsókna- og nýsköpunarhúss við Háskólann á Akureyri, bygging hótels í Aðalstræti, bygging íþróttahúss og sundlaugar í Garðabæ, bygging íbúðarhúsnæðis í Reykjavík og Mosfellsbæ. Þá vinnur félagið að gerð Arnarness- og Fífuhvammsvegar í Kópavogi, snjóflóðavarnargarða á Seyðisfirði auk margra annarra verkefna. Loks skal geta þess að ÍAV er með talsverða starfsemi á austurlandi í tengslum við þá uppbyggingu sem þar fer fram, svo sem byggingu leikskóla á Egilsstöðum og verslunarmiðstöðvar á Reyðarfirði.