Hagnaður Íslandsbanka á fyrsta ársfjórðungi nam 3.038 m.kr. eftir skatta. Hagnaður var 4.888 m.kr á fyrsta ársfjórðungi í fyrra, en þar af var um 3,5 milljarða hagnaður fyrir skatta af sölu hlutabréfa í Straumi fjárfestingarbanka. Rekstrartölur fyrir árið 2004 hafa verið aðlagaðar alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.

Hagnaður fyrir skatta nam 3.608 m.kr., samanborið við 5.776 m.kr. á sama tímabili í fyrra. Hagnaður á hlut var 0,25 krónur á fyrsta ársfjórðungi, en var 0,49 krónur á sama tímabili í fyrra.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 21,7%, en var 84,8% á sama tímabili í fyrra. Hreinar vaxtatekjur jukust um 63,3% frá fyrra ári og voru 4.465 m.kr.

Vaxtamunur var 2,5%, en var 2,4% á sama tímabili í fyrra og hefur því aukist lítillega. Eigin iðgjöld námu 1.892 m.kr., eigin tjón 1.663 m.kr. og hrein iðgjöld því 229 m.kr.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum var 52,5% í bankastarfsemi og 30,6% í vátryggingarekstri.

Heildareignir samstæðunnar námu 767 milljörðum króna 31. mars 2005 og höfðu þá aukist um 13,3% frá áramótum. Frá 1. apríl teljast heildareignir BNbank með samstæðunni, en þær námu um síðustu áramót 381 milljarði.

Lán og kröfur samstæðunnar námu 594 milljörðum króna 31. mars og höfðu aukist um 14,7% á ársfjórðungnum. Heildarinnlán námu 182 milljörðum í lok 1. ársfjórðungs og jukust um 2% frá áramótum.

Eignir í stýringu námu 276 milljörðum króna og jukust um 8,6% á tímabilinu. Eigið fé nam 68 milljörðum króna í lok mars og var eiginfjárhlutfall á CAD grunni 15,5%, þar af A-hluti 12%.

"Afkoma ársfjórðungsins endurspeglar sterkan undirliggjandi rekstur og vöxt í starfsemi bankans. BNbank varð hluti af samstæðunni þann 1. apríl sl. og mun afkoma Íslandsbanka því styrkjast sem nemur hagnaði BNbank. Efnahagsreikningur bankans tekur stakkaskiptum, en stærsti hluti útlána bankans verður til Noregs. Á innlendum markaði er áhersla lögð á aukna hagræðingu og á að veita viðskiptavinum heildarþjónustu í fjármálum. Þá verður söluandvirði og hagnaði af sölu hlutabréfa í Sjóvá varið til frekari sóknar alþjóðlega," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri félagsins í tilkynningu frá því.