Hagnaður JPMorgan, næst stærsta banka í Bandaríkjunum, dróst saman um 76% á milli ára, samkvæmt uppgjöri bankans á fjórða fjórðungi ársins 2008. Aukin gjaldþrot og samdráttur í Bandaríkjunum ollu því að bankinn þurfti að afskrifa eignir upp á 2,9 milljarða dala ásamt því að auka framlag á afskriftarreikning.

Tekjur síðustu þriggja mánaða voru 702 milljónir dollara, samanborið við 2,9 milljarða dollara á síðasta fjórðungi 2007, samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Í umfjöllun Bloomberg fréttaveitunnar segir að samdrátturinn í Bandaríkjunum, sem nú hefur staðið yfir í ár, hafi valdið því að atvinnuleysi er nú í 15 ára hámarki, og gjaldþrot hafi aukist mikið. Þá er það orðið mun algengara að neytendur greiði kreditkortareikninga of seint, og það sama á við um afborganir af íbúðalánum. JPMorgan fer ekki varhluta af þeirri þróun og hefur félagið aukið varúðarniðurfærslu mikið á siðustu mánuðum.