Bandaríski lyfjarisinn Merck birti í dag rekstrarniðurstöður ársins 2004. Þrátt fyrir 2% aukningu á veltu félagsins dróst hagnaður saman um 11,8%, var 5,81 milljarður dollara nú samanborið við 6,59 milljarða árið 2003 að teknu tilliti til niðurlagðrar starfsemi á því ári. Þessi aukna velta á sér stað þrátt fyrir það að sölu á lyfinu Vioxx hafi verið hætt á síðasta fjórðungi ársins vegna niðurstaðna rannsókna sem bentu m.a. til að lyfið yki líkur á hjartaáfalli. Gert er ráð fyrir því að samdráttur í sölu vegna þessa hafi numið 700 ? 750 milljónum dollara á fjórðungnum segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Þars egir ennfremur að auk þessa sé gert ráð fyrir því að bakfærð sala vegna Vioxx muni nema um 492 milljónum dollara. Heildarvelta félagsins árið 2004 nam 22,94 milljörðum dollara. Í kostnaðarliðum félagsins nú er gjaldfærsla að upphæð 604 milljónir dollara til þess að mæta hugsanlegum lögfræðikostnaði sem félagið gæti þurft að greiða vegna málaferla tengdum Vioxx. Áhrifin sem Vioxx hefur á afkomu félagsins eru því veruleg eins og búist hafði verið við.

600 málsóknir biðu um áramótin

30. september 2004 var Vioxx tekið úr sölu og innkallað vegna rannsókna sem sýndu fram á tengsl lyfsins m.a. við auknar líkur á hjartaáfalli. Þann 31. desember var stjórnendum Merck kunnugt um nærri 600 málshöfðanir á hendur félaginu tengdar Vioxx en talið er að margfalt fleiri málsóknir verði höfðaðar þegar öll kurl verða komin til grafar og líklegt að þær geti numið þúsundum. Félagið hyggst verjast málaferlunum af krafti og hefur ekki gert ráð fyrir neinum greiðslum vegna bóta sem það gæti þurft að greiða ef niðurstöður málsóknanna á hendur því falla sækjendum í vil segir í Hálffimm fréttum.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.