Bandaríski hugbúnaðarframleiðandinn Microsoft hagnaðist um 3,14 ma.USD (191 ma.kr.), eða 29 sent á hlut, á þriðja ársfjórðungi sem er fyrsti fjórðungur í bókum félagsins. Á sama fjórðungi í fyrra nam hagnaður Microsoft 2,53 mö.USD (153 mö.kr.), eða 23 sentum á hlut, og hefur hann því aukist um 24% á milli ára. Tekjur félagsins á nýliðnum fjórðungi námu 9,74 mö.USD (593 mö.kr.) samanborið við 9,19 ma.USD (560 ma.kr.) á sama tíma í fyrra sem er aukning um tæp 6%. Aðalástæðu betri afkomu má rekja til mikillar aukningar í sölu tölva og netþjóna á heimsvísu, en eins og kunnugt er selur Microsoft margvíslegan hugbúnað fyrir slíkar vélar.

Í afkomutölum félagsins er búið að taka tillit til kostnaðar upp á 2 sent á hlut sem féll til vegna skaðabóta sem Microsoft var gert að greiða í kjölfar lögsóknar á fjórðungnum. Ef ekki hefði komið til þess kostnaðar væri hagnaður fjórðungsins 31 sent á hlut, sem er einu senti meira en sérfræðingar vestanhafs höfðu að meðaltali spáð. Því var einnig spáð að tekjur félagsins myndu nema rétt rúmlega 9,8 mö.USD og má því segja að uppgjörið sé í takt við væntingar.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.