Hagnaður breska tískufyrirtækisins Mosaic Fashions nam 10,7 milljónum punda (1,37 milljörðum króna) á fjárhagsárinu 2007, samanborið við 12,6 milljóna punda (1,6 milljarða krónu) hagnað árinu áður, sem samsvarar 15% samdrætti, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar. Baugur Group á 37,34% hlut í Mosaic Fashions samkvæmt upplýsingum í hlutahafaskrá.

Mosaic Fashions eignaðist alla hluti í tískufyrirtækinu Rubicon Retail Limited þann 12. október síðastliðinn fyrir 182.3 milljónir punda (23,38 milljarða króna) og er ágóði af þeim rekstri innifalin í uppgjörinu frá og með 13. oktober til 27. janúar, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Rekstarhagnaður (EBITDA) hækkaði 22% á milli ára í 72,2 milljónir punda, samanborið við 59,2 milljónir punda árinu áður.

Viðskiptablaðið greindi frá því á mánudaginn að Derek Lovelock, forstjóri Mosaic Fashions, teldi að stjórnendur fyrirtækisins hafi ef til vill ekki einbeitt sér nægilega vel að rekstri kjarnaverslananna vegna þess hve niðursokknir þeir voru í yfirtökuna á Rubicon, en þar var þar vitnað í frétt The Daily Telegraph, sem ennfremur greindi frá því að spáð hafi verið að hagnaður fyrirtækisins drægist saman um 14% milli ára.

Í kjölfar yfirtökunnar á Rubicon jókst heildarsala fyrirtækisins um 43% eða í 585,8 milljónir punda, samanborið við 410 milljónir punda árinu áður. Sala jókst í Coast, Karen Millen, Principles, Warehous og Whistles, en dróst saman í Oasis og Shoe Studio Group. Sala utan Bretlands jókst um 28% og er nú 15% af heildarveltu fyrirtækisins.

Gengi Mosaic hækkaði um 0,08% á markaði í dag, en félagið birti ekki uppgjör fyrr en við lokun markaðar.