Exxon Mobil, sem er stærsta olíufyrirtækið á almennum markaði í heimi, tilkynnti á fimmtudag að hagnaður á öðrum ársfjórðungi væri annar mesti í sögu fyrirtækisins. Þessar niðurstöður eru líklegar til að valda enn frekari óvild í garð olíufyrirtækja þar sem olíuverð er víða í sögulegu hámarki, segir í frétt Dow Jones.

Hagnaður fyrirtækisins var 751 milljarður króna á tímabilinu, sem er 36% aukning frá árinu áður. Hagnaður fyrirtækisins er einhver sá allra mesti sem gefin hefur verið upp í Bandaríkjunum, en hagnaður Exxon var 775 milljarðar á síðasta ársfjórðungi í fyrra, segir í fréttinni.

Miðað við gengi á bréfum í Exxon er markaðsvirði þess um 29.531 milljarðar króna, sem er um þrjátíuföld landsframleiðsla Íslands á síðasta ári.

Shell tilkynntu einnig að hagnaður hefði aukist um 40%, í 530 milljarða og BP PLC, sem er annað stærsta olíufyrirtækið á almennum markaði, tilkynnti að hagnaður hefði aukist um 40% á tímabilinu, í 526 milljarða.